Skólavefur
Vefur Þjóðskjalasafns Íslands
I Saga 203 Minnispunktar Til baka ->
Dr. Werner Gerlach
(1891 – 1963)

Dr. Werner Gerlach
Dr. Werner Gerlach.


Dr. Robert Rössle
Dr. Robert Rössle.






Meinafræðistofnun háskólans í Basel
Meinafræðistofnun háskólans í Basel
á dögum þeirra Rössles og Gerlachs.



































Gerlach á leið til hafnar í gæslu breskra hermanna
Gerlach á leið til hafnar í Reykjavík
í gæslu breskra hermanna.
Werner Gerlach fæddist í Wiesbaden 4. september 1891. Hann lærði læknisfræði í Tübingen og Münster og í fyrri heimsstyrjöldinni þjónaði hann í sjúkraflutningadeild 6. herfylkisins og í ýmsum hreinlætisdeildum á vesturvígstöðvunum og hlaut járnkrossinn fyrir framgöngu sína. Hann lauk doktorsprófi læknisfræði 1917 og starfaði sem herlæknir í Tyrklandi 1917-1919. Fyrir störf sín þar fékk hann járnhálfmánann. Árið 1920 varð hann aðstoðarmaður á meinafræðistofnuninni í Wiesbaden, fékk síðan hann stöðu aðstoðarmanns við meinafræðideild háskólans í Jena og gerðist loks hægri hönd Robert Rössle sem var prófessor við háskólann í Basel í Sviss. Rössle stýrði meinafræðideild háskólans árin 1922-29. Hann var virtur og vel látinn í háskólalífi Basel og og breytti meinafræðideildinni í öfluga vísindastofnun. Þegar hann hvarf til starfa í Berlín árið 1929 tók Gerlach við starfi hans og var yfirmaður stofnunarinnar til ársins 1936 er honum var vikið úr starfi vegna stjórnmálaafskipta sem hann sinnti af kappi í trássi við bann háskólans við slíku framferði.

Gerlach hafði verið vel látinn kennari og duglegur fræðimaður á þeim tíma sem hann starfaði í Basel sem aðstoðarmaður Rössle. Hann lét víða til sín taka og jók umsvif meinafræðistofnunarinnar allnokkuð. Hins vegar er tímabils hans sem yfirmanns sömu stofnunar minnst í Basel sem skuggaskeiðs í sögu hennar. Gerlach tók virkan þátt í starfi nasistaflokksins, þrátt fyrir að hafa lofað stjórn háskólans að skipta sér ekki af stjórnmálum. Vegna þessa var honum vikið úr starfi árið 1936. Gerlach skaut þá máli sínu til áfrýjunardómstóls sem dæmdi honum aftur þau embætti sem hann hafði áður gegnt. Skömmu síðar var Gerlach kvaddur til Þýskalands og gerður að prófessor við háskólann í Jena og deildarforseta læknadeildar skólans, að vísu í trássi við vilja rektors skólans, en með tilstyrk Himmlers vinar síns. Þessum stöðum gegndi Gerlach þar til hann var gerður að aðalræðismanni Þjóðverja á Íslandi í apríl 1939.

Háskólinn í Jena var miðstöð kynbóta og erfðafræðirannsókna nasista. Gerlach var vinur Himmlers, sem veitti honum aðgang að öllum hryllingsbúðum SS þannig að Gerlach hafði staðgóða þekkingu á glæpafræðum og meðferð nasista á þýskum afbrotamönnum. Þór Whitehead telur ljóst að Gerlach hafi „stundað krufningar á líkum fanga í Buchenwald-fangabúðunum“ á sama tíma og hann gegndi störfum við Jena háskóla. Nasistar töldu að afbrotahneigð væri arfgeng og beittu vönunum til að koma í veg fyrir að glæpamenn fjölguðu sér. Einnig var samkynhneigð refsiverð. Þessi viðhorf voru bakgrunnur starfsvettvangs Gerlachs í Jena og hafa eflaust mótað afstöðu hans til meðferðar afbrotamanna.

Werner Gerlach kom til Íslands sem aðalræðismaður Þjóðverja í apríl 1939. Hann var hingað kominn í erindum Heinrichs Himmlers, sem var yfirmaður SS og þýsku lögreglunnar. Gerlach var m.a. ætlað að hamla gegn andþýskum áróðri í fjölmiðlum og menningarlífi Íslendinga. Þjóðverjar litu sem kunnugt er með velþóknun til hins norræna kynstofns og ekki síst Íslendinga. Dr. Bernhard Kummer, kennari við Jena háskóla og einn helsti lærifaðir Himmlers um norræn efni, ritaði bók um þann "andlega fjársjóð" sem Þjóðverjar gætu sótt til Íslands; hetjulund og sæmd víkinga, frændrækni og þjóðareiningu, svo eitthvað sé nefnt. Hér átti Gerlach að finna þessar gersemar og nýta fyrir Þjóðverja, en uppræta hismi, meinsemdir og andstöðu gegn Þjóðverjum. Minnispunktar hans bera það glögglega með sér að hann hefur orðið fyrir sárum vonbrigðum með Íslendinga og niðurstaða hans var sú að þeir sem höfðu dásamað eiginleika þessarar smáþjóðar norður við ysta haf hefðu farið villur vega svo um munaði.

Gerlach rækti starf sitt á Íslandi af eðlislægri samviskusemi. Hann var eins og grár köttur í Stjórnarráðshúsinu þar sem hann kvartaði grimmt yfir blöðum og útvarpi. Hann kallaði líka menn á sinn fund til að tala þá til, ef honum þótti þess þurfa. Einn þeirra var Valtýr Stefánsson, ritstjóri Morgunblaðsins. Honum virðist hafa staðið stuggur af þessum þýska ákafamanni. Gerlach var hávaxinn og dálítið boginn í baki. Hann þótti skapstór og hrokafullur og varð fljótlega óvinsæll á Íslandi. Íslenskir ráðherrar, sem höfðu ímigust á honum vegna sífelldra kvartana hans, kölluðu hann sín á milli "Geirlák" eða "sá kúpti" svo aðrir áttuðu sig ekki á um hvern var rætt.

Hinn 10. maí 1940 hernámu Bretar Ísland og eitt af þeirra fyrstu verkum var að handtaka Gerlach ræðismann og fjölskyldu hans. Hann var síðan fluttur til Englands og fangelsaður, en látinn laus 1941 í skiptum fyrir breska stjórnarerindreka. Þegar hann sneri aftur til Þýskalands var hann skipaður fulltrúi þýska utanríkisráðuneytisins í verndarríkinu Bæheimi og Mæri (núverandi Tékklandi) og síðar menningarfulltrúi í þýska sendiráðinu í París. Í Prag starfaði hann hins vegar náið með Reinhard Heydrich, sem var landstjóri Þjóðverja í verndarríkinu - hann var ekki undirmaður hans í beinum skilningi, heldur ekki Hermanns Görings. Jafnhliða störfum fyrir utanríkisráðuneytið bar Gerlach hins vegar áfram foringjatign í SS-liðinu og yfirmaður þess var Heinrich Himmler.

„Í ágúst 1945 handtóku Bandaríkjamenn Gerlach og héldu honum í fangabúðum í Þýskalandi á meðan þeir rannsökuðu mál hans fram á árið 1948. Eftir að Gerlach var látinn laus, átti hann ekki afturkvæmt til starfa í þýskum háskólum, þar sem hann hafði borið foringjatign í SS-liðinu og gegnt forystustörfum fyrir Nasistaflokkinn þýska. Hann tók þá höndum saman við annan starfsbróður sinn, lækni, og stofnuðu þeir fyrirtæki um rannsóknastöð í meinafræði á Bæjaralandi. Stöð þessi tók við sýnum frá ýmsum sjúkrahúsum og gekk reksturinn ágætlega. Stöðina rak Gerlach til dánardags 1963, en glæsilegum vísindaferli hans lauk í raun, þegar hann tók að sér aðalræðismannsembættið í Reykjavík 1939.“*

Sjö árum eftir fæðingu Werners Gerlachs í Wiesbaden var fyrsti dísilmótor heimsins gangsettur í eldspýtnaverksmiðjunni í Kempten, sem er tæplega sjötíu þúsund manna bær í Suður-Þýskalandi. Hinn 31. ágúst 1963 stöðvaðist lífsmótor þessa fyrrum aðalræðismanns Þjóðverja á Íslandi í þessum sama bæ, sem getur rakið sögu sína aftur til 15. aldar fyrir Krists burð.

_______________________
* Þór Whitehead, upplýsingar í tölvupósti 2004.03.17.

Heimildir:

Catalogus Professorum Halensis
Die Geschichte der Pathologie in Basel

Þór Whitehead, Ófriður í aðsigi,
Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1980
Þór Whitehead, Stríð fyrir ströndum,
Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1985
Þór Whitehead, Milli vonar og ótta,
Reykjavík: Vaka-Helgafell, 1995
Þór Whitehead, Bretarnir koma,
Reykjavík: Vaka-Helgafell, 1999.

Prófessor Þór Whitehead er þökkuð margvísleg aðstoð við samantekt þessara upplýsinga um Dr. Werner Gerlach.