Minnispunktar Gerlachs
í íslenskri þýðingu

Skjalið

Minnispunktar Gerlachs eru varðveittir í Þjóðskjalasafni Íslands; 1993-71 Fjármálaráðuneyti. Gerlachsskjöl sem gerð voru upptæk 1940. Frumgerð minnispunktanna hefur ekki komið í leitirnar. Um þýðanda þeirra á íslensku sjá kafla um efni skjalsins hér að neðan.

Efni skjalsins

Eftirfarandi lýsing er að öllum líkindum samin af þýðanda minnispunktanna.

  1. Punktar þeir, sem hjer fara á eftir, fundust í plöggum þýska aðalkonsulsins á Íslandi, Dr. Werner Gerlach, þegar brezkur her tók í sína vörzlur aðalkonsulatið 10. maí 1940.
  2. Allir púnktarnir eru skrifaðir með rithönd Gerlachs og flestir þeirra með grænu bleki, sem virðist sjerkennandi fyrir hann.
  3. Nærri allir púnktarnir eru ódagsettir, en textinn ber það með sjer að þeir eru skrifaðir á tímabilinu frá desember 1939 til 10. maí 1940.
  4. Yfirskriftir eða titlar voru engir, nema þeir, sem hjer eru settir. Púnktarnir voru sýnilega aðeins ætlaðir til eigin afnota, sennilega skrifaðir niður á mismunandi tímum. Allt bendir til að púnktar þessir hafi verið ætlaðir til þess, að semja upp úr þeim árs- eða aðra skýrslu til Þýskalands um ástandið hjer á Íslandi. Sje þetta rjett til getið, er ljóst að allar athugasemdir hans miða að þeirri niðurstöðu, að Íslandi væri ekki fært að vera sjálfstætt og væri í mest máta þurfandi fyrir "endurskapandi" erlend áhrif.
  5. Púnktar þessir hafa ekki verið teknir út úr neinni möppu eða valdir úr öðrum pappírum. Þeir fundust lausir og eru afritaðir hjer nákvæmlega eins og þeir fundust, án nokkrra [svo!] úrfellinga eða viðbóta. Af þessari ástæðu munu menn finna í þeim ummæli, sem aðeins þeir skilja, sem muna kringumstæður þær, sem þá voru fyrir hendi.
  6. Púnktarnir eru á lausum blöðum, sem ekki eru heft saman. Stryk [svo!] þvert yfir síðuna þýðir að þar endar blað í frumritinu.
„Í ársbyrjun 1946 fékk Finnur Jónsson dómsmálaráðherra heimild Bandaríkjahers til að rannsaka skjöl þau, sem Bretar höfðu komist yfir í þýska ræðismannsbústaðnum að morgni hernámsdagsins 10. maí 1940. Finnur fól tveimur mönnum þetta verk: Sigurði Sigurðssyni kennara frá Ísafirði og Sigurgeir Jónssyni lögfræðingi (síðar bæjarfógeta og hæstaréttardómara), sem þá var starfsmaður dómsmálaráðuneytis. Þeir félagar fengu aðgang að gögnum Gerlachs í skrifstofu gagnnjósnadeildar (Counter Intelligence Corps) Bandaríkjahers, sem þá var undir forystu Vestur-Íslendingsins Ragnars Stefánssonar majórs, og hafði aðsetur í Tripoli-kampi við vestanverða Suðurgötu, þar sem nú standa m.a. byggingar verkfræði- og raunvísindadeilda Háskóla Íslands. Sigurður annaðist að mestu þýðingu frumskjalanna úr þýsku, en Sigurgeir var honum innan handar. Til hliðsjónar höfðu þeir þýðingar, sem Bretar og Bandaríkjamenn höfðu gert á skjölunum á ensku. Þór Whitehead sagnfræðingur studdist að mestu í bókum sínum við ensku þýðinguna á skjölunum í trausti þess að hún hefði verið borin saman við frumtexta af þeim Sigurði og Sigurgeir, sem staðfestu að hún hefði verið í alla staði vel unnin, enda höfðu Bretar og Bandaríkjamenn á að skipa prýðilega hæfum tungumálamönnum, sumum af þýsku ætterni.“*

_______________________
* Þór Whitehead, upplýsingar í tölvupósti 2004.03.17.

Sögulegt baksvið

Heimsstyrjöldin síðari hófst með innrás Þjóðverja í Pólland 1. september 1939 og lauk með uppgjöf Japana 14. ágúst 1945. Áður höfðu Þjóðverjar gefist upp 7. maí 1945.

Dr. Werner Gerlach kom til Íslands sem ræðismaður Þjóðverja á Íslandi í apríl 1939. Hann var meðlimur í þýska nasistaflokknum, foringi í SS og vinur Heinrich Himmlers. Sjá nánar um hann og starfsemi hans á Íslandi
hér.

Heimildir

Gunnar M. Magnúss, Virkið í norðri, 1. bindi, Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, 1947.
Íslenskur söguatlas 3. bindi, Reykjavík: Iðunn, 1994.
Þór Whitehead, Ófriður í aðsigi, Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1980
Þór Whitehead, Stríð fyrir ströndum, Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1985
Þór Whitehead, Milli vonar og ótta, Reykjavík: Vaka-Helgafell, 1995
Þór Whitehead, Bretarnir koma, Reykjavík: Vaka-Helgafell, 1999.



Þór Whitehead er þökkuð margvísleg aðstoð við gerð þessa viðfangsefnis um minnispunkta Gerlachs.