Skýrsla um heilbrigðisástand - uppskrift

10. Meðferð mæðra á ungbörnum fer síbatnandi, bæði hvað klæðnað og mataræði snertir. Misbrestur er á þessu á einstaka stað, einkum þar sem fátæktin er fyrir. Allar þær konur, sem fætt hafa á þessu ári, hafa haft börn sín á brjósti nema tvær sem engin mjólk kom í. Hafa yfirsetukonurnar gengið vel fram í því að hvetja konurnar til þess, enda þykir flestum nú orðið mjólkin orðin fulldýr hjer í kaupstaðnum og hafa því sumar mæður haft börnin lengur á brjósti en þær voru færar um.

11. Skólahús. Skólaskoðun fór fram í öllu hjeraðinu á þessu ári. Hafði jeg í samráði við fræðslunefndir ákveðið dag og stund þar sem öll börn og kennarar skyldu mæta til skoðunar. Þetta gekk vel víðast hvar, en á sumum stöðum mættu ekki nærri öll börnin á ákveðnum degi, en komu þó síðar heim til mín til skoðunar. Alls voru skoðuð 150 börn og unglingar, þar af 78 í barnaskóla Akraness og 20 í unglingaskóla sama staðar, en 62 börn í sveitinni.