Minnispunktar Gerlachs
Síða 6 - skýringar

  1. „Gerlach þóttist sjá, að í Landakotsskóla gætti þýskra áhrifa, eins og í því fáa, sem til heilla horfði í þjóðlífi Íslendinga. Kaþólski söfnuðurinn hefði "sótt í sig veðrið á síðari tímum undir forystu hins dugmikla Rínlendings, Meulenbergs biskups". Þýskar nunnur, Jósefssystur, rækju Landakotsskóla.“


  2. „Danski sendiherrann á Íslandi. Gerlach hafði það eftir honum, að Íslendinga sárskorti "örvun" að utan, en ræðismaðurinn taldi á engra færi nema Þjóðverja að rétta þessa voluðu smáþjóð við.“


  3. „Rithöfundurinn vinsæli, Zweig, var af Gyðingaættum. Hann flúði Þýskaland og settist að í Lundúnum. Halldór Kiljan Laxness var samferða honum á rithöfundaþing 1936, og ræddu þeir um „fyrirsjáanlegt hrun Evrópu“ í komandi styrjöld. Zweig spáði því, að Ísland kæmist af klakklaust og sagði við Halldór: „Þegar næsta stríð ríður yfir sendi ég yður orð að útvega mér herbergiskytru einhvers staðar upp undir þaki í Reykjavík.“ Því miður varð ekkert úr þessu, heldur fór Zweig „til Brasilíu í þau botnlausu leiðindi með æskufulla konu sína þar sem þau förguðu sér bæði.“ Halldór taldi víst, að hefði hann útvegað Zweig „kames undir súð í Reykjavík mundi ekki hafa farið sem fór“. (Halldór Kiljan Laxness: Skáldatími (Rvík 1963), bls. 245-46)“.
  4. Skýringar eru úr bók Þórs Whiteheads, Milli vonar og ótta (Reykjavík, 1995), birtar með leyfi höfundar.