-
Ernst nokkur Kuckelsberg hafði séð um útgáfu á bókinni Deutsche Nordlandreise fyrir þýska Norræna félagið. Í bókinni er lýst för meðlima í Norræna félaginu á norðurslóðir með lystiskipinu Milwaukee 1936. Alfred Rosenberg, Himmler og fleiri stórnasistar voru í forystu fyrir þessu félagi sem kostaði útgáfu bókarinnar.
„Minnisgreinar Gerlachs eru um margt andsvar hans við „fáránelgum þvættingi“ í reisubók Kuckelsbergs. Einn fremsti lærifaðir Himmlers og nasista um norræn efni, ásatrúarfræðingurinn dr. Bernhard Kummer, kennari í Jena-háskóla, dró á einum stað saman í þessari bók allt það, sem Þjóðverjar gætu sótt í „andlegan fjársjóð“ hinnar fátæku smáþjóðar: tengsl við moldina og glæsta fyrirmynd að viðreisn þýskrar bændastéttar; hugmyndina um sæmd vígamanna, sem Þjóðverjar héldu við með hernaðaranda sínum, en væri upprunnin í íslenskum hetjukvæðum; germannskt siðgæði, eins og það birtist í frændrækni, félagshyggju og þjóðareiningu Íslendinga; sönnun um, að þýska kenningin um "foringjann" af rót samfélagsheildarinnar væri norræn að uppruna, komin beint úr Íslendingasögum og hetjukvæðum. Að áliti Kummers áttu Þjóðverjar því öðrum þræði að geta þakkað Íslendingum fyrir foringjann, Adolf Hitler! Í sögu Íslands taldi Kummer, að Þjóðverjar gætu ennfremur sótt sér lærdóma um sárgrætilega hnignun hámenningar vegna áhrifa kristni, en einnig uppörvun í íslenska þjóðernisvakningu, sem á síðustu tímum hefði aftur tendrað með Íslendingum trú á mátt sinn og megin í heiðnum stíl og stælt þá til að endurreisa menningu sína í allri hennar fornu dýrð. Með því að blóta Hitler, Óðin og Þór var von til þess að Þjóðverjar gætu loks staðið uppréttir við hlið Íslendinga.“
-
„Jón hélt til tónlistarnáms í Þýskalandi í fyrra stríði og settist þar að. Hann var rammur þjóðernissinni í þýskum stíl og dýrkandi fornnorrænna bókmennta, en í þær sótti hann sér innblástur til tónsmíða að fordæmi Richards Wagners. Á fyrstu valdaárum Hitlers nutu verk Jóns hylli í Þýskalandi, og hann gekk í samtök tónskálda, sem nasistar stofnuðu og stjórnuðu.“ Jón var kvæntur konu af Gyðingaættum, Annie Riethof, og nasistar létu hann gjalda þess og ofsóttu foreldra hennar.
-
Innrás Rússa í Finnland 30. nóvember 1939, sem var framkvæmd með vitund Þjóðverja og umsömdu afskiptaleysi þeirra, vakti hörð viðbrögð fjölmiðla og almennings á Norðurlöndum. Þessi viðbrögð reittu Adolf Hitler til reiði og ollu því að hann sá ástæðu til að breyta um stefnu gagnvart Norðurlöndum. Þessi breytta stefna kemur skýrt fram í minnispunktum Gerlachs.
-
D. N. B. = „Deutsche Nachrichten Bureau, Þýska fréttastofan.“
-
„Gerlach vísaði hér til kröfu þýska ríkisflugfélagsins Lufthansa um flugsamgöngur við Ísland. Íslendingar höfðu hafnað þessari kröfu í mars 1939, en Gerlach átti að fylgja henni eftir, því að Þjóðverjar ágirntust flugaðstöðu í landinu "meðal annars af hernaðarástæðum“.“
Skýringar eru úr bók Þórs Whiteheads, Milli vonar og ótta (Reykjavík, 1995), birtar með leyfi höfundar.