Skólavefur
Vefur Þjóðskjalasafns Íslands
I Íslenska 403 Sjálfstætt fólk

Halldór Laxness og Jökuldalsheiðin

Halldór Laxness ferðaðist um Austurland árið 1926 og fór þá meðal annars um Jökuldalsheiði, drakk kaffi í Veturhúsum og gisti í Sænautaseli. Hann lagði af stað frá Reykjavík 18. ágúst 1926 með strandferðaskipinu Esjunni og sigldi til Reyðarfjarðar. Þaðan hélt hann til Egilsstaða og svo að Hallormsstað þar sem hann orti þekkt ljóð sitt „Hallormsstaðaskógur“ (Bláfjólu má í birkiskógnum líta…). Hann dvaldi svo hjá gömlum vini sínum, Bjarna Guðmundssyni lækni á Brekku. Frá Héraði fór hann um Fljótsdalsheiði um miðjan nóvember ásamt Jóni Snædal bónda á Eiríksstöðum á Jökuldal. Þeir lentu í hrakningum, en náðu Eiríksstöðum heilir á húfi. Þar dvaldi Halldór á aðra viku í góðu yfirlæti. Júlíus JónassonVinnumaður á Eiríksstöðum, Júlíus Jónasson (1900-1968), sjá mynd, var fenginn til að fylgja Halldóri við annan mann, en þeir lentu í norðaustan stórhríð þegar þeir voru komnir á móts við Eiríksstaðahnefil og sneru þeir til baka ofan að Eiríksstöðum. Þá kól Halldór í framan. Júlíusi vinnumanni þótti Halldór „af óvönum manni, vera mjög duglegur og harður af sér“. Einum eða tveimur dögum seinna var komið betra veður og lögðu þeir Halldór og Júlíus þá aftur af stað. Að þessu sinni var einnig með í för Vilhjálmur Snædal, hinn bóndinn á Eiríksstöðum, en hann var forðagæslumaður og þurfti að setja á á Fjöllunum. Þeir komu við í Veturhúsum og drukku kaffi. Síðan héldu þeir að Sænautaseli og gistu þar um nóttina. Heimafólk gekk úr rúmum sínum fyrir gestunum, en auk þeirra þremenninga voru aðrir þrír gestir á bænum. Halldór svaf í hjónarúminu ásamt tveimur öðrum. Þegar Júlíus vinnumaður kom í baðstofu, morguninn eftir, lá Halldór til fóta í hjónarúminu í einum hnút og dáðist vinnumaðurinn að nægjusemi hans. „Ekki datt mér þá í hug að þar svæfi Nóbelsskáld. Stundum hefur hvarflað að mér að hann hafi verið að dreyma um Bjart í Sumarhúsum, þegar ég kom að honum þennan morgun.“ Halldór hélt áfram ferð sinni og kom m.a. við í Möðrudal, á Grímsstöðum á Fjöllum, í Reykjahlíð, á Skútustöðum, Laugum og Húsavík. Hann tók sér far með Esjunni til Ísafjarðar og ferðaðist þaðan með skipi til Reykjavíkur og kom þangað á Þorláksmessu 1926.

Hér er líkleg leið Halldórs Laxness, Júlíusar og Vilhjálms frá Eiríksstöðum til Veturhúsa og Sænautasels merkt inn á kort af svæðinu.

Þegar þetta gerðist bjó í Veturhúsum Bjarni Þorgrímsson (1887-1945). Í Sænautaseli bjó Þórður Guðmundur Guðmundsson (1882-1958) og kona hans Jónína Sigríður Guðnadóttir (1887-1927) ásamt syni þeirra hjóna (Pétri, f. 1912) og háaldraðri móður Guðmundar, Petru Jónsdóttur (f. 1850).

Um þessa heimsókn sína skrifaði Halldór greinina „Skammdegisnótt í Jökuldalsheiðinni“, sem birtist fyrst í Alþýðublaðinu í mars 1927 og síðan í Dagleið á fjöllum. Skúli Ármann Sveinn Guðmundsson (f. 1937), bifvélavirki hjá Vegagerðinni, sonur Guðmundar í Sænautaseli og seinni konu hans, Guðrúnar Halldóru Eiríksdóttur (1892-1967), hefur gert athugasemdir við lýsingar Halldórs. „Að öllu samanlögðu leiðir Skúli sterk rök að því að Halldór hafi heldur betur fært í stílinn í grein sinni, og sums staðar sagt beinlínis rangt frá staðháttum og aðbúnaði“ ritar Halldór Guðmundsson, ævisöguritari Halldórs Laxness. Hann telur líka að Laxness hafi haft spurnir af því að lýsingar hans hafi sært stolt fólksins í Sænautaseli og því hafi hann jafnan neitað að gefa upp heimilisfang Bjarts í Sumarhúsum. Hérna er hægt að lesa fróðlegt viðtal við Skúla Guðmundsson, auk gagnlegra upplýsinga um Sænautasel.

Sumarið 1929 skrifaði Halldór uppkast að sögu um íslenskan bónda sem býr á afskekktri heiði. Þetta er fyrsta gerð skáldsögunnar Sjálfstætt fólk. Seinna sama sumar skrifaði hann Ingu Laxness: „Einginn maður getur elskað íslenskar heiðar heitara en ég.“ Þarna var hann reyndar að tala um ást sína á Mosfellsheiði. Halldór las úr þessari frumgerð sinni fyrir vin sinn, Jóhann Jónsson, í Leipzig vorið 1931 og þóttist ætla að fleygja henni. Jóhann harðbannaði honum það og sagði að þetta væri það besta sem Halldór hefði skrifað. Svo merkilega vill til að bóndinn og aðalpersónan í þessari frumgerð Sjálfstæðs fólks heitir einmitt Guðmundur Guðmundsson, eins og bóndinn í Sænautaseli á sinni tíð.

Bærinn í Sænautaseli var byggður 1843 af Sigurði Einarssyni og konu hans Kristrúnu Bjarnadóttur. Sænautasel fór í eyði eftir eldgos í Dyngjufjöllum árið 1875 með miklu öskufalli og var í eyði í fimm ár. Síðan var búið þar allt til ársins 1943, þannig að byggðarsaga Sænautasels spannar eina öld. Bærinn í Sænautaseli var endurbyggður árið 1992 og segir nánar af því í þessari grein.

Heimildir:

  • Halldór Guðmundsson, Halldór Laxness. Ævisaga. Reykjavík, 2004.
  • Matthías Johannessen, "Ekki datt mér þá í hug að þar svæfi Nóbelsskáld" Viðtal við Júlíus Jónsson.
    M Samtöl I. Reykjavík, 1977.