Stóridómur

Skjalið

Skjalið er varðveitt í safni Alþingis hins forna, dómabók 1263-1635, úr fórum Jóns Péturssonar háyfirdómara. Þetta eru uppskriftir af ýmsum dómum frá þessu nærri 400 ára tímabili.

Efni skjalsins

Stóridómur var settur 1564 og er til í mörgum uppskriftum. Þetta dómasafn mun ritað um 1635 svo hér er ekki frumskjal að ræða. Þess ber einnig að gæta að smávægilegur orðamunur er á einstökum uppskriftum. Stóridómur er birtur í Fornbréfasafni, 14. bindi, og munar nokkru á þeirri útgáfu og þessu skjali. M.a. vantar hér nafn eins dómanda og annar er tvítalinn, einnig hefur ein setning fallið niður. Þetta skiptir þó sárlitlu efnislega. Skriftin er mjög bundin og mikið um skammstafanir.

Sögulegt baksvið

Stóridómur er löggjöf sem samþykkt var á Alþingi 1564 og staðfest af Danakonungi ári síðar. Stóridómur fjallaði um brot í siðferðismálum, þar sem miklu þyngri refsingar voru settar við slíkum brotum og fleiri atriði talin til brota en áður hafði verið. Í stað kirkjunnar sá umboðsmaður konungs nú um að innheimta sektir fyrir þessi brot og var það konungi allnokkur tekjulind.

Samkvæmt Stóradómi var refsað fyrir þrenns konar brot: Sifjaspell (kynmök ættingja og tengdra), hórdóm (framhjáhald hjóna) og frillulífi (lauslæti ógiftra). Refsingar voru flokkaðar nákvæmlega eftir eðli brota og gátu verið allt frá lágmarkssektum til aleigumissis. Einnig var tekin upp líflátsrefsing við alvarlegustu brotunum þar sem karlar voru hálshöggnir en konum drekkt í Drekkingarhyl á Þingvöllum. Hörð ákvæði Stóradóms leiddu m.a. stundum til svonefndra dulsmála þar sem barnsfæðingu var leynt og barn jafnvel deytt.

Stóridómur var meðal mikilvægustu og afdrifaríkustu laga sem Danakonungur lét setja á Íslandi eftir siðaskipti 1550. Dómurinn var Íslendingum þungbær ráðstöfun, enda fjöldi manna líflátinn samkvæmt honum, sendur í fangavist erlendis, beittur líkamlegum pyndingum eða látinn sæta sektargreiðslum. Á síðari hluta 18. aldar urðu refsingar samkvæmt Stóradómi mildari. Hægt var að sækja um náðun til konungs sem gat leitt til þess að dauðadómi var breytt í fangelsisvist. Á fyrri hluta 19. aldar var hætt að dæma konur til dauða fyrir dulsmál. Stóridómur var þó ekki að fullu afnuminn fyrr en með nýjum refsilögum í Danmörku og á Íslandi 1870.

Heimildir

Glögg greinargerð er um Stóradóm í yfirliti Einars Laxness um Íslandssögu (Íslandssaga a-ö, III. bindi. Reykjavík 1995. Vaka-Helgafell) og er hér byggt á henni. Þar er einnig að finna gagnlega heimildaskrá.