Skjalið
Skjalið er varðveitt Þjóðskjalasafni í Skjalasafni stiftamtmanns III, nr. 115.
Efni skjalsins
Jón leitaði ásjár yfirvalda syðra vorið 1784 og hafði með til baka peninga í lokuðum kistli, sem hann átti að afhenda sýslumanni til útbýtingar meðal bænda, og var ætlunin að þeir gætu keypt sér skepnur í Rangárvalla- og Árnessýslum í stað þeirra sem fallið höfðu. Nokkur málarekstur varð út af því að séra Jón útbýtti sumu fénu til sýslunga sinna, sem hann mætti á austurleiðinni. Hann tók hins vegar kvittun fyrir hverjum skilding og gat gert fulla grein fyrir meðferð peninganna.
Séra Jón Steingrímsson skilaði greinargerð um ráðstöfun peninganna, dagsett í Vík í Mýrdal 15. júní 1784. Þar eru talin upp nöfn bændanna og heimili og stundum eitthvað fleira.
Sögulegt baksvið
Eftir vikulanga jarðskjálftahrinu í Vestur-Skaftafellssýslu hófst eldgos í Lakagígum á Síðuafrétti 8. júní 1783 og stóð meira og minna fram í febrúar 1784. Þetta er eitt mesta eldgos Íslandssögunnar og kallast Skaftáreldar.
Lakagígar eru 135 gígar á 25 km langri sprungu. Við upphaf gossins reis svo svartur mökkur að rökkur skall á og myrkur varð innanhúss. Jafnframt féll eitruð svört aska á jörðina. Brátt þornaði Skaftá upp og loks steyptist hraunflóð fram úr Skaftárgljúfri niður í byggðina á Síðu og tók að breiðast yfir jarðir og tún. Fjölmargir bæir eyddust, bæði vegna hrauns og vatns sem hraunið lokaði inni. Frægt er þegar séra Jón Steingrímsson messaði af alefli á Kirkjubæjarklaustri þegar hraunflóðið nálgaðist staðinn. Hraunið hætti að renna og Jón var kallaður eldklerkur upp frá því. Flatarmál hraunsins sem rann í Skaftáreldum var 580 km² og mun það vera eitt mesta hraungos jarðar eftir að sögur hófust.
Nú tóku við hörmungar í líki harðra vetra og vætusumra. Þá riðu gífurlegir jarðskjálftar yfir Suðurland í ágúst 1784. Ári síðar gekk bólusótt um landið og lagði marga að velli. Þessi harðindi nefnast Móðuharðindi eftir þeirri móðu eða mistri sem lagðist yfir vegna Skaftárelda. Aska féll jafnvel í öðrum löndum og áhrifa Móðuharðinda gætti í öllum landshlutum á Íslandi. Mannfellir var gífurlegur en talið er að á árunum 1783-86 hafi rúmlega tíu þúsund manns látist vegna hörmunganna, þ.e. um 20% landsmanna.
(Byggt á riti Gunnars Karlssonar, Kóngsins menn. Reykjavík 1990, Mál og menning).
Heimildir
- Gísli Ágúst Gunnlaugsson og fl.(ritstj.). Skaftáreldar 1783-1784. Ritgerðir og heimildir. Reykjavík 1984. Mál og menning.
- Einar Laxness. Íslandssaga a-ö, II. bindi (Móðuharðindi). Reykjavík 1995. Vaka - Helgafell.
- Árni Daníel Júlíusson, Helgi Skúli Kjartansson og Jón Ólafur Ísberg (ritstj.). Íslenskur söguatlas I. Reykjavík 1989. Almenna bókafélagið.