Sjöundármál
Undirskrift Arnórs Jónssonar

Skjalið

Skjalið er varðveitt í Þjóðskjalasafni; Barðastrandarsýsla IV, 3. Dóma- og þingbók 1791-1804.

Efni skjalsins

Myndin sýnir hluta síðu úr dóma- og þingbók Barðastrandarsýslu frá 1802 þar sem Arnór Jónsson skrifar undir þingsakt (dómsgerð).

Sögulegt baksvið

Sjöundármálið er meðal þekktari morðmála Íslandssögunnar. Á Sjöundá í Barðastrandarsýslu bjuggu tvenn hjón, Bjarni Bjarnason og Guðrún Egilsdóttir og Jón Þorgrímsson og Steinunn Sveinsdóttir. Ástir tókust með þeim Bjarna og Steinunni og lauk svo að þau myrtu maka sína, Jón og Guðrúnu. Þau voru bæði dæmd til dauða. Bjarni var fluttur til Noregs og tekinn þar af lífi, en Steinunn dó í fangahúsinu í Reykjavík og var husluð utangarðs upp í Skólavörðuholti, þar sem síðar var kallað Steinkudys.

Gunnar Gunnarsson skáld byggði sögu sína Svartfugl á þessum atburðum. Arnór Jónsson kemur við sögu Gunnars, en heitir þar Amor. Gunnar sagði frá því í sjónvarpsviðtali að nafnið Amor hafi verið mislestur hans á nafni Arnórs í málsskjölum Sjöundársmálsins.

Heimildir

Einar Laxness, Íslandssaga a-ö. Reykjavík 1995. Vaka-Helgafell