Nýlega hefur verið leyst úr upphafsstöfum og táknum bréfsins (A. D. G. B.et z) og er merking þeirra talin vera: Augmundur Dei Gratia Biskup et cetera (Ögmundur af guðs náð biskup o.s.frv.).
Efni skjalsins
Vorið 1541 sendi Kristján þriðji Danakonungur herleiðangur til Íslands undir stjórn Kristófers Hvítfelds til að koma á siðaskiptum með valdi. Í júníbyrjun hneppti hann Ögmund Pálsson biskup í Skálholti í varðhald á skipi sínu. Honum var heitið frelsi gegn fégjaldi. Bréfið er beiðni Ögmundar til Ásdísar systur sinnar um að láta fjármuni sína í hendur Kristófers. Hann sveik Ögmund þó og flutti hann með sér til Danmerkur. Ögmundur lést í hafi og var jarðaður í Sórey á Sjálandi. Bréfið er ekki með hendi Ögmundar enda var hann orðinn blindur þegar þetta var.
Sögulegt baksvið
Greifastríðið (1534-1536) voru átök um ríkiserfðir í Danmörku. Því lauk með sigri Kristjáns III sem var boðberi lútherstrúar. Hann lét lögleiða lúterska kirkjuskipan í Danmörku 1536 og boðaði 1538 að sama skipan skyldi vera á Íslandi. Íslensku biskuparnir Jón Arason á Hólum og Ögmundur Pálsson í Skálholti börðust gegn hinni nýju skipan.
Orðið siðaskipti er notað um þann atburð þegar Íslendingar lögðu niður kaþólska trú og tóku upp mótmælendatrú sem stundum er kennd við Martein Lúther og kölluð lútherstrú. Hér á landi gerðist þetta árið 1550 eftir nokkra mótspyrnu yfirvalda kirkjunnar. Í kirkjuskipan Kristjáns III Danakonungs var landsmönnum sagt frá hinni nýju skipan trúmála sem tekin hafði verið upp í ríki konungs. Þegar kirkjuskipanin barst íslensku biskupunum í Skálholti og á Hólum árið 1538 hafa eflaust margir þegar verið farnir að kynnast mótmælendatrúnni, t.d. þeir sem verið höfðu í Þýskalandi eða þeir sem höfðu samskipti við þýska sjómenn. Í Þýskalandi hafði Marteinn Lúther, upphafsmaður þessarar nýju skipanar, starfað og þaðan hafði hún breiðst út. Ögmundur Pálsson Skálholtsbiskup reyndi að hindra framgang mótmælendatrúarinnar á Íslandi fram í dauðann og það var ekki fyrr en eftir dauða hans að Skálholtsbiskupsdæmi, meirihluti landsins, samþykkti hana. Þá var Jón Arason Hólabiskup eini kaþólski biskupinn á Íslandi og reyndar Norðurlöndunum öllum. Hann varðist mótmælendatrúnni af alefli og með öllum ráðum en var hálshöggvinn ásamt tveimur sonum sínum árið 1550.
Helsta breytingin sem fylgdi siðaskiptunum var að páfinn í Róm var nú ekki lengur æðsti yfirmaður kirkjunnar heldur þjóðhöfðinginn, í tilfelli Íslands Danakonungur. Hann lagði undir sig mikið af eignum kirkjunnar og síðustu biskupanna og auðgaðist nokkuð við það. Auk þess var nú ýmislegt bannað sem viðurkennt hafði verið í kaþólskum sið, svo sem einlífi klerka og klausturlíf, tilbeiðsla dýrlinga, pílagrímsferðir og fleira.
Kaþólskum söfnuði var ekki komið á fót aftur á Íslandi fyrr en á 19. öld.
Heimildir
Siðaskiptin á Íslandi:
- Árni Daníel Júlíusson, Helgi Skúli Kjartansson og Jón Ólafur Ísberg (ritstj.). Íslenskur söguatlas I. Reykjavík 1989. Almenna bókafélagið.
- Björn Þorsteinsson og Bergsteinn Jónsson. Íslandssaga til okkar daga. Reykjavík 1991. Sögufélag.
- Íslenzkt fornbréfasafn X, bls. 619-20.
- Kristjana Kristinsdóttir og Már Jónsson. Skjalalestur. Sýnishorn ritheimilda. Bráðabirgðaútgáfa. Reykjavík 2001.
- Loftur Guttormsson. Kristni á Íslandi III. Frá siðaskiptum til upplýsingar. Reykjavík 2000. Alþingi.
- Vilborg Auður Ísleifsdóttir. Siðbreytingin á Íslandi 1537-1565. Byltingin að ofan. Reykjavík 1997. Hið íslenska bókmenntafélag.
Siðaskiptin erlendis:
- Ågren, Kurt. Ný ásýnd Evrópu 1500-1750. Saga mannkyns 8. Reykjavík 1986. Almenna bókafélagið.
- Vidal-Naquet, Pierre og Jacques Bertin. Heimssöguatlas Iðunnar. Reykjavík 1996. Iðunn.
- Encyclopaedia Britannica