Sigurðarregistur |
Skjalið
Skjalið er varðveitt Þjóðskjalasafni í Biskupsskjalasafni. Bps. B. II, 5.
Efni skjalsins
Svonefnt Sigurðarregistur er kennt við Sigurð prest á Grenjaðarstað, son Jóns biskups Arasonar. Það er ritað á skinn. Meginhluti þess á við árið 1525 og hefur inni að halda máldaga Hóladómkirkju þegar Jón Arason tók við biskupsstólnum. Þar í eru einnig máldagar klaustranna og nokkurra kirkna fyrir norðan land. Laufás var eitt eftirsóttasta prestssetrið norðanlands enda stórríkt og prestar sátu þar yfirleitt lengi. Hér eru taldar upp eignir kirkjunnar, sem presturinn hafði tekjur af, og sýnir m.a. hve katólska kirkjan var orðin auðug á síðari hluta miðalda.
Sögulegt baksvið
Orðið siðaskipti er notað um þann atburð þegar Íslendingar lögðu niður kaþólska trú og tóku upp mótmælendatrú sem stundum er kennd við Martein Lúther og kölluð lútherstrú. Hér á landi gerðist þetta árið 1550 eftir nokkra mótspyrnu yfirvalda kirkjunnar. Í kirkjuskipan Kristjáns III Danakonungs var landsmönnum sagt frá hinni nýju skipan trúmála sem tekin hafði verið upp í ríki konungs. Þegar kirkjuskipanin barst íslensku biskupunum í Skálholti og á Hólum árið 1538 hafa eflaust margir þegar verið farnir að kynnast mótmælendatrúnni, t.d. þeir sem verið höfðu í Þýskalandi eða þeir sem höfðu samskipti við þýska sjómenn. Í Þýskalandi hafði Marteinn Lúther, upphafsmaður þessarar nýju skipanar, starfað og þaðan hafði hún breiðst út. Ögmundur Pálsson Skálholtsbiskup reyndi að hindra framgang mótmælendatrúarinnar á Íslandi fram í dauðann og það var ekki fyrr en eftir dauða hans að Skálholtsbiskupsdæmi, meirihluti landsins, samþykkti hana. Þá var Jón Arason Hólabiskup eini kaþólski biskupinn á Íslandi og reyndar Norðurlöndunum öllum. Hann varðist mótmælendatrúnni af alefli og með öllum ráðum en var hálshöggvinn ásamt tveimur sonum sínum árið 1550.
Helsta breytingin sem fylgdi siðaskiptunum var að páfinn í Róm var nú ekki lengur æðsti yfirmaður kirkjunnar heldur þjóðhöfðinginn, í tilfelli Íslands Danakonungur. Hann lagði undir sig mikið af eignum kirkjunnar og síðustu biskupanna og auðgaðist nokkuð við það. Auk þess var nú ýmislegt bannað sem viðurkennt hafði verið í kaþólskum sið, svo sem einlífi klerka og klausturlíf, tilbeiðsla dýrlinga, pílagrímsferðir og fleira.
Kaþólskum söfnuði var ekki komið á fót aftur á Íslandi fyrr en á 19. öld.
Heimildir
Siðaskiptin á Íslandi: