Skjalið
Skjalið er úr Skjalasafni Öxarárþings, sem varðveitt er í Þjóðskjalasafni Íslands.
Gerðabækur alþingis eru til frá því á 16. öld og eru merkar heimildir. Öllum stærri málum var vísað til alþingis, og þar voru einnig birt konungsbréf og lýst kaupum og sölum efnafólks. Farið var að prenta alþingisbækurnar á 17. öld en þær eru einnig til í handritum því lögfróðum mönnum bar nauðsyn til að hafa aðgang að þeim.
Efni skjalsins
Hér er líflátsdómur yfir Jóni Hreggviðssyni á alþingi frá 1684. Efni héraðsdómsins og tildrögin að dauða Sigurðar Snorrasonar er rakið nokkuð nákvæmlega. Loks er lýsing á sakamanninum Jóni Hreggviðssyni og mönnum heimilað að handataka hann með góðu og jafnvel enn frekar illu.
Sögulegt baksvið
Íslandsklukkan fjallar um atburði sem gerðust í lok sautjándu aldar og í upphafi hinnar átjándu, einu myrkasta skeiði íslenskrar sögu. Höfundur hennar Halldór Laxness skrifaði hana á árunum 1943-46 og er hún í 3 bindum. Höfundur lætur þess getið að bókin sé ekki "sagnfræðileg skáldsaga", " heldur lúti persónur hennar, atburðir og stíll einvörðúngu lögmálum verksins sjálfs". Þrátt fyrir þessar yfirlýsingar er þó ljóst að sagan stendur djúpum rótum í þjóðfélagsveruleik sögutímans.
Það sem einkenndi sögutímann var að landið heyrði undir Danakonung og einokunarverslun Dana á Íslandi var allsráðandi ásamt hinum illræmda Stórdómi. Réttarfarið var háð duttlungum embættismanna sem voru erindrekar Danakonungs. Á þessum tíma var illt árferði, farsóttir geisuðu s. s. stórabóla, sem felldi um þriðjung þjóðarinnar.
Mál Jóns Hreggviðssonar er byggt á raunverulegum atburðum. Hann var dæmdur fyrir snærisþjófnað til húðláts og síðar fyrir morð á embættismanni konungs, böðlinum. Var Jón handtekinn og fluttur í varðhald á Bessastöðum þar sem honum var haldið í 6 mánuði án dóms í málinu. Sagan fjallar síðan um afdrif Jóns sem sakamanns ýmist á Íslandi eða í Danmörku, í leit sinni að réttlætinu.
Við sögu koma ýmsar þekktar persónur sem flestar eru taldar eiga sér einhverja fyrirmynd í raunveruleikanum. Má þar nefna Árna Magnússon prófessor og handritasafnara sem er fyrirmynd Arnasar Arneusar, Magnús Sigurðsson í Bræðratungu sem svo er einnig nefndur í sögunni og Snæfríði Íslandssól sem talin er eiga fyrirmynd í konu Magnúsar, Þórdísi Jónsdóttur, sem var í raun systir konu Jóns Vídalíns biskups í Skálholti. Atburðir sem þessar persónur eru þátttakendur í í Íslandsklukkunni hafa því margir hverjir átt sér stað í raunveruleikanum.
Ritunartími sögunnar er á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar og hafa ýmsir bent á að sjálfstæðisbarátta smáþjóðar sé kveikjan að sögunni þó höfundur setji hana inn í aðstæður sem gerast löngu fyrir þann tíma.
Heimildir
- Eiríkur Jónsson. Rætur Íslandsklukkunnar. Reykjavík 1981. Hið íslenska bókmenntafélag.
- Peter Hallberg. Hús skáldsins. Síðara bindi. Helgi J. Halldórsson þýddi. Reykjavík 1971. Mál og menning.