Manntalið 1703

Skjalið og skjalasafnið

Handrit manntalsins tilheyrir skjalasafni rentukammers, en rentukammer var önnur helsta stjórnardeild Danakonungs ásamt kansellíi frá síðari hluta miðalda og fram undir miðja 19. öld. Verkefni rentukammers voru einkum fjármál og ýmis atvinnu- og verslunarmál.

Skjalasafn rentukammers var síðar innlimað í ríkisskjalasafn Dana. Að tilhlutan Jóns Þorkelssonar, þjóðskjalavarðar, var leitað að manntalsskýrslunum þar árið 1914, en m.a. vegna fyrri heimstyrjaldarinnar voru þær ekki fluttar til Íslands fyrr en árið 1921 og samkvæmt samningi milli Danmerkur og Íslands árið 1927 urðu þær eign Íslands. Manntalið var gefið út af Hagstofu Íslands á árunum 1924-1947.

Efni skjalsins

Manntalið skiptist eftir sýslum, eftir hreppum innan hverrar sýslu og svo eftir bæjum og hjáleigum þeirra innan hvers hrepps. Manntal hvers hrepps hefst á því að nafn hrepps er skráð. Því næst er hver bær (og hjábýli) nefndur og undir nafni hans eru rituð nöfn alls heimilisfólks. Fyrst er bóndi nefndur, síðan húsfreyja og þeirra börn. Því næst aðrir fullorðnir ásamt börnum. Sveitarómagar eru síðast taldir. Allir er skráðir með nafni, aldri og stöðu. Oft er nánari lýsing á einstaklingum, svo sem líkamlegu og andlegu atgerfi þeirra. Þeir sem tilfallandi voru til staðar á bæ vegna heimsóknar eða tímabundinnar vinnu skyldu ekki skrást í þeim hreppi heldur þar sem þeir áttu heima. Í lok manntalslista hvers hrepps eru svo skráðir þurfalingar eða ómagar hreppsins þar sem þeir dvöldu á langaföstunni. Loks skyldi gera sérstaka skrá yfir alla utansveitarhúsgangsmenn og þeir taldir þar sem þeir gistu nóttina fyrir páska 1703.

Sögulegt baksvið

Manntalið árið 1703 er fyrsta manntal sem nær til allra íbúa í heilu landi þar sem getið er nafns, aldurs og þjóðfélagsstöðu allra íbúanna. Ákvörðun um töku manntalsins er talin sprottin af slæmu efnahagsástandi á Íslandi á 17. öld og stöðugum harðindum í lok aldarinnar sem leiddi af sér afar bága stöðu landsmanna. Um aldamótin 1700 var ákveðið að leita ásjár hjá konungi skriflega. Árangur þess var m.a. sá að þeir Árni Magnússon prófessor og Páll Vídalín varalögmaður voru valdir til þess að rannsaka hag landsins og gera tillögur til úrbóta.

Hluti af verkefni þeirra Árna og Páls var að gera manntal. Þeir sendu bréf til sýslumanna og fólu þeim samantekt manntalsins. Sýslumenn létu fyrirmælin ganga áfram til hreppstjóra sem sáu um töku manntalsins, en hrepparnir voru þá 163 og venjulega voru 3-5 hreppstjórar í hverjum hreppi.

Manntalinu var skilað til Árna Magnússonar og Páls Vídalíns á Alþingi í júní 1703 og síðan sent til Kaupmannahafnar. Þar virðist það að mestu hafa legið óhreyft í 75 ár eða til 1777-78 þegar Skúli Magnússon landfógeti vann úr því fyrir jarðabók sína.

Samkvæmt manntalinu reyndist mannfjöldinn á Íslandi árið 1703 að frádregnum tví- og fleirtalningum vera 50.358 manns. Þar af karlar 22.867 og konur 27.491. Eftir landshlutum er skiptingin þessi: Sunnlendingafjórðungur 15.564, Vestfirðingafjórðungur 17.831, Norðlendingafjórðungur 11.777 og Austfirðingafjórðungur 5.186.

Heimildir

Meira um manntalið...