Skjalið
Skjalið er síða úr Héraðsbók Halldórs Jónssonar 1663-1699 (Borgarfjarðarprófastsdæmi AC/1) sem varðveitt er í Þjóðskjalasafni Íslands.
Héraðsbók Halldórs Jónssonar er minnisbók prófastsins í Borgarfirði frá síðari hluta 17. aldar, ein hin elsta sinnar tegundar sem til er. Þar eru færð inn bréf og margs konar gjörningar.
Efni skjalsins
Í þessari bók er undirskrift Jóns Hreggviðssonar og er hún það eina sem til er með hans rithönd og jafnframt eina áþreifanlega sönnunin fyrir tilvist hans. Tilefnið er það að Jón hefur verið settur út af sakramentinu, þ.e. meinað að ganga til altaris, að því er virðist fyrir ósæmilegt orðbragð.
Sögulegt baksvið
Íslandsklukkan fjallar um atburði sem gerðust í lok sautjándu aldar og í upphafi hinnar átjándu, einu myrkasta skeiði íslenskrar sögu. Höfundur hennar Halldór Laxness skrifaði hana á árunum 1943-46 og er hún í 3 bindum. Höfundur lætur þess getið að bókin sé ekki "sagnfræðileg skáldsaga", " heldur lúti persónur hennar, atburðir og stíll einvörðúngu lögmálum verksins sjálfs". Þrátt fyrir þessar yfirlýsingar er þó ljóst að sagan stendur djúpum rótum í þjóðfélagsveruleik sögutímans.
Það sem einkenndi sögutímann var að landið heyrði undir Danakonung og einokunarverslun Dana á Íslandi var allsráðandi ásamt hinum illræmda Stórdómi. Réttarfarið var háð duttlungum embættismanna sem voru erindrekar Danakonungs. Á þessum tíma var illt árferði, farsóttir geisuðu s. s. stórabóla, sem felldi um þriðjung þjóðarinnar.
Mál Jóns Hreggviðssonar er byggt á raunverulegum atburðum. Hann var dæmdur fyrir snærisþjófnað til húðláts og síðar fyrir morð á embættismanni konungs, böðlinum. Var Jón handtekinn og fluttur í varðhald á Bessastöðum þar sem honum var haldið í 6 mánuði án dóms í málinu. Sagan fjallar síðan um afdrif Jóns sem sakamanns ýmist á Íslandi eða í Danmörku, í leit sinni að réttlætinu.
Við sögu koma ýmsar þekktar persónur sem flestar eru taldar eiga sér einhverja fyrirmynd í raunveruleikanum. Má þar nefna Árna Magnússon prófessor og handritasafnara sem er fyrirmynd Arnasar Arneusar, Magnús Sigurðsson í Bræðratungu sem svo er einnig nefndur í sögunni og Snæfríði Íslandssól sem talin er eiga fyrirmynd í konu Magnúsar, Þórdísi Jónsdóttur, sem var í raun systir konu Jóns Vídalíns biskups í Skálholti. Atburðir sem þessar persónur eru þátttakendur í í Íslandsklukkunni hafa því margir hverjir átt sér stað í raunveruleikanum.
Ritunartími sögunnar er á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar og hafa ýmsir bent á að sjálfstæðisbarátta smáþjóðar sé kveikjan að sögunni þó höfundur setji hana inn í aðstæður sem gerast löngu fyrir þann tíma.
Heimildir
- Eiríkur Jónsson. Rætur Íslandsklukkunnar. Reykjavík 1981. Hið íslenska bókmenntafélag.
- Peter Hallberg. Hús skáldsins. Síðara bindi. Helgi J. Halldórsson þýddi. Reykjavík 1971. Mál og menning.